Rio Tinto hefur verið með til skoðunar að loka tveimur álverum, annars vegar í Straumsvík og hins vegar á Nýja-Sjálandi. Í síðustu viku hætti Rio Tinto við að loka álverinu á Nýja-Sjálandi á þessu ári eftir að hafa náð nýjum og hagstæðari raforkusamningi út árið 2024.

Álverð hefur hækkað töluvert að undanförnu og hefur ekki verið hærra í meira en tvö ár. Verð á tonni af áli kostar nú um 2.000 dollara en fór lægst undir 1.500 dollara á síðasta ári. Leiða má að því líkur að með hækkun álverðs dragi úr líkunum á því að Rio Tinto ákveði að loka álverinu í Straumsvík. Félagið hefur hótað lokun álversins takist ekki að endursemja við Landsvirkjun um raforkuverð. Talið er að Rio Tinto greiði hæsta raforkuverð íslensku álveranna, um 35-40 dollara á megavattstund.

Álverið hefur verið keyrt á 85% afköstum frá árinu 2019 en þá myndaðist ljósbogi í kerskála í álverinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .