„Ég vitna stundum í Pawel Bartoszek, fyrrverandi alþingismann, þegar hann velti upp hvaða eiginleiki myndi skipta mestu máli eftir 50 ár þegar tæknin væri búin að leysa af öll helstu störf. Hann sagði að mögulega væri það sá eiginleiki að geta verið skemmtileg,“ segir Ásta Fjeldsted og brosir. „Í því felst svo margt. Í framtíðinni held ég að líf og vinna verði svolítið ein heild, ekki eins og í gamla daga þegar fólk fór í verksmiðju og stimplaði sig inn og fór svo heim. Í dag er þetta allt einn grautur og verður að vera sjálfbært og skemmtilegt,“ segir Ásta. „Annað sem Viðskiptaráð getur verið leiðandi í er sú þróun að ungt fólk vill ekki vinna hjá hvaða fyrirtæki sem er. Fólk spyr oft fyrir hvaða hugsjónir fyrirtæki standa. Hvernig er umhverfisstefnan? Jafnréttisstefnan? Nýsköpunarstefna? Eitthvað sem áður þekktist ekki,“ segir Ásta.

Lifum á nýjum tímum

„Við lifum á nýjum tímum. Fólk vill hafa sveigjanleika, geta farið í frí og sótt börnin sín á ákveðnum tíma. Þetta „harða“ viðskiptalíf sem ég er að koma úr gerir það að verkum að margir ráðgjafar McKinsey eru þar ekki til starfsloka. Alveg sama hvað þú býður í laun eða flott hótel og dýra bíla með bílstjóra sem keyra þig um allt þá er það ekki endilega líf sem fólk sækist eftir. Fólk vill meira frelsi.

Því fylgir auðvitað ábyrgð og þar er hægt að ýta undir þá hugsun að fólk beri svolítið ábyrgð á sjálfu sér og sínu starfi. Þú ert ekki bara að fara að sækja um vinnu og vinna fyrir einhvern, þú ert að fara að skapa þitt eigið. Mér finnst að það eigi að ýta undir það hjá öllum. Frekar en að spyrja ríkið og fyrirtækin hvað þau ætli að gera þurfum við að spyrja okkur sjálf hvað það er sem við ætlum að leggja fram. Hvað ætla ég að gera til að skapa eitthvað fyrir framtíðina?,“ segir Ásta.

„Ég var ekki alin þannig upp í grunnskóla, heldur miklu frekar að ég gæti fengið góða vinnu ef ég færi í hitt eða þetta námið. Sá tími er bara liðinn,“ segir Ásta.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .