Viðskiptaráð Íslands hefur uppfært reiknivél sína sem sýnir fram á: „Hvar er best að búa,“ á Íslandi. Reiknivélin var fyrst gerð árið 2015, en nú hefur hún verið uppfærð og tekur tillit til nýjustu talna um álagningarprósentur og skólagjöld sérhvers sveitarfélags á landinu. Mikil umræða hefur verið um hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu.

Mikil hækkun á húsnæðisverði

Í kjölfar þess að fasteignaverð hækkaði hefur fasteignamat húsnæðis hækkað um nánast allt land. Á sama tíma hafa álagningarprósentur fasteignagjalda að mestu staðið í stað.„Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað hratt undanfarin ár að nafnvirði. Sé horft til þróunina frá árinu 2011, þegar húsnæðisverð byrjaði að taka við sér eftir lækkanir árin áður, nemur hækkunin yfir 88%. Nafnverðshækkanir segja þó einungis hálfa söguna. Að jafnaði er leiðrétt fyrir verðlagsbreytingum hér á landi til þess að skoða raunverðshækkanir. Sé leiðrétt fyrir vísitölu neysluverðs sést að raunhækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu er 54% á tímabilinu. Ef tekið er mið af launahækkunum á tímabilinu og leiðrétt fyrir auknum kaupmætti sökum þessa nemur hækkunin tæpum 17%,“ segir í frétt Viðskiptaráðs.

Reiknivélin sýnir í hvaða sveitarfélagi er hagkvæmast að búa miðað við tekjur, stærð húsnæðis og fjölda barna í skóla. Enn fremur sýnir reiknivélin fjárhagslega stöðu viðkomandi sveitarfélags.