Háttsettur kínverskur framkvæmdastjóri hjá ríkisfasteignafélagi þar í landi er horfinn sporlaust eftir að hafa kallað leiðtoga Kína, Xi Jinping, trúð vegna ræðu sem hann hélt um viðbrögð yfirvalda við kórónufaraldrinum.

Ren Zhiqiang vann hjá Huayuan Real Estate Group og er meðlimur í kommúnistaflokknum, en ekkert hefur frá honum heyrst síðan síðastliðinn fimmtudag að sögn nokkurra vina hans.

Náin vinkona hans segir hann vera vel þekkt opinber persóna innan Kína, og hvarf hans sé nú orðið alkunna. „Stofnanirnar sem bera ábyrgð á þessu verða að gefa skilmerkilegar og löglegar skýringar á málinu sem allra fyrst,“ er haft eftir henni í frétt Guardian um málið .

Zhiqiang hafði nýlega skrifað gagnrýna úttekt á ræðu sem Jinping hélt fyrir 170 þúsund embættismenn kommúnistaflokksins á fjarfundi í seinni hluta febrúar. Úttektinni hafði hann deilt með fólki sem hann þekkti, og hún hafði komist í dreifingu á netinu.

Jinping var hvergi nefndur á nafn, en samkvæmt heimildum bandaríska vefmiðilsins China Digital Times sagðist Zhiqiang hafa komist að þeirri niðurstöðu eftir að hafa farið vel yfir ræðuna að þar færi „ekki keisari að sýna ‚nýju fötin sín‘, heldur nakinn trúður sem neitaði að stíga til hliðar.“