Reuters-stofnunin kannaði hversu vel menn muna hvar þeir lásu fréttir á netinu. Þar kom í ljós að menn muna það vel þegar þær eru lesnar beint á vef viðkomandi miðla, en miklu síður þegar þær eru lesnar um félagsmiðla eða leitarvélar.

Það kemur vart á óvart, til þess auðkenna miðlar sig (eins og önnur fyrirtæki) með útliti og vörumerkingum, svo varan sé minnisstæðari, en slíks sér miklu síður stað ef farið er um gáttir annarra.

Þetta er auðvitað verra fyrir fjölmiðlana, sem eiga verra með að selja auglýsingar eða áskriftir ef lesendur vita ekki hvar þeir lásu fréttirnar. Enn verra er það þó sjálfsagt fyrir hitt, að þá njóta miðlarnir ekki nema að litlu leyti trúverðugleika og orðspors fyrir að vera fundvísir og fyrstir með fréttirnar. Og af hverju ættu þeir þá að vera að leggja mikið á sig í þeim efnum?