Viðskiptaráð hefur sett upp reiknivél sem gerir hverjum sem er kleift að bera heildartekjur sínar saman við aðra með tilliti til aldurs, búsetu og kyns. Talnaefnið byggir á skattframtölum einstaklinga en nýjustu upplýsingar um tekjur landsmanna eru frá árinu 2020.

Reiknivélin miðar við heildartekjur, en samkvæmt Hagstofunni skiptast þær í atvinnutekjur, fjármagnstekjur og aðrar tekjur. Til annarra tekna teljast meðal annars atvinnuleysisbætur, félagsleg aðstoð og lífeyris- og bótagreiðslur.

Viðskiptaráð tekur einnig saman stutta greiningu á tekjur og dreifingu tekna á undanförnum árum. Í grein VÍ segir að oft sé fullyrt að vaxandi ójöfnuður sé á Íslandi þó gögnin bendi til annars. Gini stuðullinn sé til að mynda næst lægstur á Íslandi í samanburði við OECD löndin og hlutdeild þeirra tekjuhæstu af heildartekjum hafi staðið í stað síðasta áratuginn.

Einnig hefur hlutdeild þeirra eignamestu í heildareignum lækkað mikið frá árinu 2010, þá mest hjá efsta 0,1% eða sem nemur um 46%, að því er kemur fram í grein VÍ.

„Alþjóðlegur samanburður á tekjuójöfnuði gefur auk þess til kynna að jöfnuður hér á landi sé með því mesta sem gerist. Samanburður á bæði Gini stuðlinum og fimmtungastuðlinum rennir stoðum undir þá staðhæfingu en fimmtungastuðullinn mælir tekjumun á milli efsta og neðsta tekjufimmtungs. Sá stuðull er hvergi lægri en einmitt hér á landi en síðustu mælingar gefa til kynna að tekjuhæsti fimmtungurinn hafi um þrisvar sinnum hærri tekjur en tekjulægsti fimmtungurinn,“ segir í grein Viðskiptaráðs.