Bandarískur starfshópur skipaður áhrifamiklum lögfræðingum hvetur þarlend stjórnvöld til að herða lög gegn innherjasvikum. Nánar tiltekið vilja þeir gera miðlun innherjaupplýsinga refsiverða jafnvel þótt viðkomandi innherji hagnist ekki með beinum hætti persónulega á upplýsingagjöfinni.

Preet Bharara – formaður starfshópsins og fyrrverandi ríkissaksóknari (e. Manhattan US attorney) – segir í samtali við Financial times að krafan um persónulega hagsmuni geri ríkum innherjum kleift að leka upplýsingum til vina og vandamanna, sem síðan hagnist á þeim, án afleiðinga.

Tillagan kemur í kjölfar lagasetningar sem samþykkt var í fulltrúadeild Bandaríkjaþings nýverið, sem leggur blátt bann við innherjasvikum – sem hingað til hafa einungis verið bönnuð með tilvísun í almenn verðbréfalög frá 1934.

Þingflokkur Repúblíkana í fulltrúadeildinni studdi frumvarpið aðeins eftir að því hafði verið breytt á þann hátt að krafa væri gerð um beina persónulega hagsmuni, en hefð hefur myndast fyrir slíkri túlkun verðbréfalaganna gömlu hjá dómstólum.