Stéttarfélagið Unite heldur því fram að British Airways ætli að reka stóran meirihluta af starfsfólki þess til þess að geta ráðið það aftur á verri kjörum. Breska flugfélagið tilkynnti stéttarfélögum í síðasta mánuði að það væri að íhuga allt að 12 þúsund uppsagnir.

Viðræður eiganda flugfélagsins, International Airlines Group, og stéttarfélaganna hafa ekki skilað árangri, samkvæmt frétt Guardian . Alex Cruz, forstjóri BA, sendi póst á starfsfólk sitt síðasta föstudag þar sem hann gagnrýndi stéttarfélögin Unite og GMB fyrir að hafa ekki mætt á samráðsfundi til að ræða um aðgerðirnar.

Stéttarfélögin segja að þau geti ekki samið við flugfélagið um uppsagnir og breytingar á vinnuaðstæðum þar sem stærri fundir tímum kórónuveirunnar eru erfiðir. Unite og GMB eru að íhuga lögsókn gegn British Airways á þeirri grundu að ómögulegt sé að halda mikilvægan viðræðufund á meðan útgöngubanni varir.

„Við munum ekki láta það viðgangast að BA ætli að nýta sér krísuna sem afsökun til að innleiða langtímaáætlun um að segja upp störfum, lækka laun og draga úr réttindum,“ sagði Len McCluskey, framkvæmdastjóri Unite. „Enginn annar vinnuveitandi hefur hótað að reka og endurráða allt starfsfólk.“

British Airways hefur gefið það út að uppsagnirnar séu nauðsynlegar vegna væntinga um minni eftirspurn í fluggeiranum næstu árin.