Eftir að hafa boðið 27 sveitarfélögum í byrjun síðasta mánaðar til viðræðna um kaup á fasteignum í eigu sjóðsins hafa 13 þeirra nú þegar látið sjóðinn vita að þau hafi ekki áhuga. Enn á Íbúðalánasjóður 509 eignir í þessum 27 sveitarfélögum, sem bjóðast nú að kaupa eignirnar áður en þau verða boðnar til sölu á almennum markaði.

Var hugmyndin sú að þær yrðu nýttar sem félagslegt húsnæði að því er Vísir greinir frá. Í sambærilegu átaki fyrir um ári seldi sjóðurinn um 60 eignir til sveitarfélaga. Flestar þær eignir sem sveitarfélögin afþakka forkaupsrétt á eru í Reykjanesbæ, Sandgerði og Fjarðarbyggð.

„Þessar eignir pössuðu ekki inn í og eru ekki eignir eins og við erum að leita að í félagslega húsnæðið okkar,“ segir Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar. „Það er eina ástæðan, þetta passaði ekki inn í það sem við höfum þörf á.“

Þrjú sveitarfélög hafa samþykkt að kaupa átta eignir, þar af Snæfellsbær að kaupa fjórar, Kópavogur þrjár og Hafnafjörður eina. Til skoðunar er að kaupa 31 eign til viðbótar, en þær eru í Reykjavík, Mosfellsbæ, Garði, Borgarbyggð, Grundarfjarðarbæ, Akureyri, Hveragerði og Ölfus.

Íbúðarlánasjóður á nú 535 íbúðir, sem stefnt er að því að selja þær að stórum hluta fyrir árslok. Jafnframt er sjóðurinn ekki að bæta við sig eignum vegna þess að vanskil eru í sögulegu lágmarki.