Endursemja þarf um skuldir tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves eftir taprekstur síðustu ára að því er RÚV greinir frá.

Sena keypti tónlistarhátíðina í síðustu viku af Icelandair en skuldirnar urðu eftir í félaginu IA tónlistarhátíð sem haldið hefur hátíðina undanfarin ár.

Hátíðin var rekin með 57 milljón króna tapi árið 2016. Tap ársins 2017 var minna að sögn Gríms Atlasonar, sem skipulagt hefur hátíðina undanfarin ár, enda var hátíðin minnkuð milli ára.

Enn á eftir að gera upp laun við starfsmenn Iceland Airways auk þess að aðrar skuldir hlaupa á tugum milljóna. Eggert B. Ólafsson lögmaður stjórnar IA segir í samtali við RÚV að greiðsla launa muni vera í forgangi. Þá þurfi að endursemja um aðrar skuldir sem verði að líkindum ekki greiddar að fullu.