Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,9% í 6,1 milljarðs króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Iceland Seafood International (ISI) leiddi lækkanir en gengi félagsins féll um 5,1% og stendur nú í 11,1 krónu á hlut. Hlutabréfaverð ISI hefur nú lækkað um fjórðung frá áramótum.

Í afkomuviðvörun sem Iceland Seafood sendi frá sér í morgun kemur fram að aðlagaður hagnaður fyrir skatta á fyrsta ársfjórðungi hafi verið við núllið samkvæmt drögum að uppgjöri.

Sjá einnig: Verðbólga bítur í afkomu Iceland Seafood

Hlutabréf Kviku banka, Sýnar og VÍS féllu um meira en 2% í dag en veltan var þó tiltölulega lítil. Gengi Eimskips féll um 1,7% í 300 milljóna veltu og stendur nú í 560 krónum.

Um þriðjungur veltunnar á aðalmarkaðnum var með bréf Arion banka eða um 2,1 milljarður króna. Hlutabréf Arion féllu um 1,5% og standa nú í 170 krónum á hlut. Nærri milljarðs króna velta var með bréf Íslandsbanka sem lækkuðu lítillega og er verð á hlut nú 126,4 krónur.

Hlutabréfamarkaðir víða um heim voru rauðir í dag en áhyggjur eru uppi um áhrif samkomutakmarkana vegna Covid-faraldursins í Kína á aðfangakeðjur og heimshagkerfið. SSE Composite vísitalan, sem inniheldur öll hlutabréf í Sjanghæ kauphöllinni, lækkaði um meira en 5% í dag. FTSE 100 og Stoxx 600 vísitölurnar lækkuðu um tæplega 1,8% í dag.

Fjögur félög hækkuðu á aðalmarkaðnum í dag. Útgerðarfélögin Síldarvinnslan og Brim hækkuðu bæði í dag. Gengi Síldarvinnslunnar stóð í 105 krónum við lokun markaðarins eftir 1,5% hækkun í dag og hefur aldrei verið hærra. Þá hækkaði hlutabréfverð Icelandair um eitt prósent í hálfs milljarðs veltu og stendur nú í 2,03 krónum á hlut.