Icelandair hefur aflýst sex flugum til og frá Evrópu eftir hádegi í dag. Ennfremur hefur öllu flugi frá Keflavík til Bandaríkjanna og Kanada seinnipartinn í dag verið aflýst. Félagið greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Brottfarir í kvöld frá Bandaríkjunum og Kanada á leið til Íslands eru aftur á móti á áætlun. Allt flug Icelandair til og frá landinu í fyrramálið er því á áætlun og ekki er gert ráð fyrir frekari röskunum á flugi yfir helgina.

„Til að greiða úr töfum sem orðið hafa á flugi til og frá landinu vegna veðurs, þá höfum við sett upp ný flug á morgun, föstudaginn 24. Janúar, til og frá London Gatwick, Kaupmannahöfn, Amsterdam og París. Raskanir á flugi í gær höfðu áhrif á í kringum 3.000 farþega en vel hefur gengið að greiða úr því. Við höfum komið öllum upplýsingum um breytingar á flugi til meirihluta farþega nú þegar. Í dag er hins vegar unnið samkvæmt nýjum verkferlum og því erum við að takast á við raskanir með skilvirkari hætti en áður og með minni áhrif á starfsemi félagsins. Frá því í október hefur Icelandair aflýst 200 brottförum, þar af eru 130 í janúar og 50 í dag, um er að ræða 3% af heildar brottförum félagsins á tímabilinu.  Það eru ávallt árssveiflur í veðrinu en við erum alltaf undirbúin að takast á við raskanir á flugi vegna veðurs. Markmið okkar er að koma farþegum okkar sem fyrst á áfangastað á sem öruggastan máta og að truflun farþega verði sem minnst," segir Ingibjörg Ásdís Ragnarsdóttir, forstöðumaður þjónustu og upplifunar hjá Icelandair.

„Það er ekki nauðsynlegt að hafa samband við okkur nema ef ný ferðaáætlun hentar viðkomandi ekki. Það er ávallt hægt fara inn á heimasíðu félagsins og fylgjast með á svæðinu "umsjón með bókun". Þar eru flugupplýsingar uppfærðar um leið og breytingar liggja fyrir einnig er hægt að uppfæra þar upplýsingar um símanúmer og netfang farþega svo réttar upplýsingar berist hratt og örugglega," bætir Ingibjörg Ásdís við.