Icelandair Group hefur gengið frá samkomulagi við bandaríska bankann CIT Bank um 30 milljón dollara, um 3,7 milljarða króna lánssamning. Þetta kemur fram í tilkynningu flugfélagsins til Kauphallarinnar .

Um er að ræða annan samninginn sem Icelandair gerir við CIT en f yrr í þessum mánuði var gengið frá 35 milljón dollara endurfjármögnun og er lántakan nú því áframhald af þeirri fyrri. Endurfjármögnunin kemur í kjölfarið á uppgreiðslu á skuldabréfaflokki félagsins fyrr á þessu ári.

Líkt og sá fyrri er lánssamningurinn til fimm ára en ekki kemur fram í tilkynningunni hvaða vaxtakjör félaginu hafi boðist.

Í tilkynningu vegna fjármögnunarinnar segir Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Icelandair Group:

„Þessi fjármögnun styrkir góða lausafjárstöðu félagsins enn frekar. Þetta er annað lánið í mánuðinum sem við tökum hjá CIT en alls hefur bankinn lánað okkur um 8 milljarða króna eða 65 milljónir bandaríkjadala. Það er ánægjulegt að svo reyndur fjármögnunaraðili deili trú okkar á framtíðarhorfur félagsins.”