Starfsfólki á ýmsum sviðum og deildum starfstöðva Icelandair, bæði í borginni og í Keflavík hefur verið sagt upp í vikunni að því er Vísir segir frá.

Segir Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi félagsins uppsagnirnar, sem ná til á þriðja tug starfsmanna, vera lið í hagræðingaraðgerðum félagsins. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í lok síðasta mánaðar hefur félagið hafið flutning á hluta ýmis konar bókhaldsvinnu félagsins til Eistlands.

„Við erum með dótturfélag í Eistlandi og höfum verið með til margra ára. Við höfum verið að bæta í þar og færa ákveðna einfalda þætti þangað. Við ætlum að halda áfram á þeirri vegferð,“ sagði Bogi Nils Bogason starfandi forstjóri félagsins í samtali við Viðskiptablaðið þá.

Guðjón segir uppsagnirnar nú ekki teljast til hópuppsagna, en félag sem hefur fleiri en 300 starfsmenn þarf að segja upp að minnsta kosti 30 manns til að svo sé.

Fyrr í mánuðinum kom fram að félagið hyggðist fækka stöðugildum í hlutastörfum flugfreyja og flugliða , sem þurfa að ákveða sig áður en nýtt skipulag tekur gildi eftir áramót hvort taki fullu starfi hjá félaginu eða láti af störfum. Flugfreyjufélag Íslands hefur mótmælt uppsögnunum .