Gengi meirihluta skráðra félaga á aðalmarkaði hækkaði á grænum degi í Kauphöllinni í dag. Hlutabréf flugfélagsins Icelandair hækkuðu um 3,85% í tæplega 850 milljón króna viðskiptum. Gengi bréfa félagsins hefur ekki mælst hærra síðan í júlímánuði árið 2020 og stendur í 1,89 krónum á hlut.

Hlutabréf Iceland Seafood hækkaði mest allra, um 5,4% í 570 milljón króna viðskiptum. Gengi bréfa fasteignafélagsins Eikar hækkaði um 3,25% í dag, en hin fasteignafélögin á aðalmarkaði, Reitir og Reginn, hækkuðu einnig umfram eitt prósent.

Einungis fjögur félög lækkuðu á aðalmarkaði í viðskiptum dagsins, Eimskip, Síldarvinnslan, Íslandsbanki og Kvika banki. Ekkert þeirra hækkaði umfram einu prósenti.

Nokkur velta var með bréf Arion banka og Marel en viðskipti með bréfin námu bæði um 700 milljónum króna. Mest velta var með bréf Icelandair. Heildarvelta viðskipta dagsins nam 5,3 milljörðum króna og hækkaði gengi OMXI10 úrvalsvísitölunnar um 0,3%. Stendur gengi vísitölunnar nú í 3.407,71 stigum.

Á First North hækkaði gengi Play um 2,16% í 28 milljón króna viðskiptum og gengi Solid Clouds um 1,31% í einungis 397 þúsund króna viðskiptum.