Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair segir félagið ekki vera að leita eftir ríkisaðstoð í formi fjármagns að því er fram kemur í samtali við hann á RÚV þar sem hann er spurður hvort orðalag um náið samstarf við stjórnvöld þýði ríkisaðstoð.

„Nei það þýðir það ekki. Samskiptin við stjórnvöld hafa verið mikil og góð síðan þetta ástand hófst og við munum halda því áfram. Þetta snýst um samstarf og samskipti,“ segir Bogi Nils.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun hefur félagið ráðið þrjá banka til ráðgjafar um að tryggja að lausafjárstaða félagsins fari ekki undir 30 milljarða króna, Bogi segir aðgerðirnar nú ekki vera gerðar til að bjarga félaginu frá gjaldþroti en jafnframt séu leiðirnar til að tryggja þetta ekki komnar fram enn.

„Icelandair er ekki að verða gjaldþrota. En eins og önnur flugfélög eru að glíma við þá er algjör tekjubrestur í flugi og ferðaþjónustu í heiminum og við þurfum að bregðast við því,“ segir Bogi Nils.

„Þetta verkefni sem við erum að fara í núna snýst ekki bara um að koma okkur í gegnum ástandið heldur líka ætlum við að vera í sterkri stöðu þegar markaðir fara að opnast aftur, bæði hvað efnahagsreikninginn varðar og reksturinn líka.“