Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi lækkaði um 2,10%, niður í 1955,94 stig á rauðum degi í kauphöllinni, en ekkert fyrirtæki hækkaði í virði í dag. Þrjú fyrirtæki stóðu í stað, það er Heimavellir, Skeljungur og Sýn, í litlum sem engum viðskiptum hvert, en heildarviðskiptin í dag námu 2,0 milljörðum króna.

Icelandair lækkaði langsamlega mest, eða um 4,28% í þó einungis 138 milljóna króna viðskiptum og stóð gengi bréfa félagsins  í 6,49 krónum á hlut sem er lægsta dagslokagengi síðan í byrjun maí árið 2012 en það fór í 6,43 krónur á hlut um miðjan dag 28 ágúst í fyrra eftir að félagið birti sína aðra aðra afkomuviðvörun á árinu 2018.

Færa má að því líkum að fréttir helgarinnar og dagsins í dag um að árásir á stærstu olíuvinnslustöð heims í Sádi Arabíu hafi tekið út 5% af allri olíuframleiðslugetu heims og áhrif þess á olíuverð .

Þannig hefur verðið á bæði Brent og Vestur Texas hráolíunni hækkað um í kringum 12% en þegar þetta er skrifað er fyrrnefndi mælikvarðinn á 67,46 Bandaríkjadali olíufatið en sá síðarnefndi á 61,19 dali.

Olíuverð hefur líklega einnig áhrif á starfsemi útgerðarfyrirtækja, en eina slíka í kauphöllinni, Brim, lækkaði næst mest í viðskiptum dagsins, eða um 2,98%, niður í 35,80 krónur hvert bréf, í talsvert meiri viðskiptum eða fyrir 339 milljónir króna sem jafnframt var mesta veltan með bréf í einu félagi í dag.

Þriðja mesta lækkunin var síðan hjá tölvufyrirtækinu Origo, eða um 2,76% í litlum viðskiptum, eða fyrir einungis 33 milljónir en bréfin fóru niður í 22,90 krónur. Öll bréf sem viðskipti voru með lækkuðu um meira en 1 prósent, en minnsta lækkunin var á gengi bréfa Eimskipafélagsins, eða um 1,14%, einnig í litlum viðskiptum eða fyrir 31 milljón, niður í 173,50 krónur.