Eigendur skuldabréfa Icelandair upp á samtals um 27 milljarða króna hafa veitt félaginu undanþágu frá nokkrum rekstrarskilyrðum í bréfunum, sem félagið uppfyllir ekki lengur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Þann 30. október gaf félagið út fjórðungsuppgjör fyrir þriðja ársfjórðung, og staðfesti þar að skilyrðin væru ekki uppfyllt. Sama dag hófst skriflegt ferli þar sem óskað var eftir formlegri, tímabundinni undanþágu frá skilyrðunum, en viðræður höfðu staðið yfir við skuldabréfaeigendur í einhvern tíma.

Því ferli lauk í gær með því að undanþágan var samþykkt, en hún gildir til 30. nóvember, næstkomandi föstudags.

Sagt var frá því í tilkynningu í gær að gert væri ráð fyrir að á sama fundi og undanþágan var tekin fyrir yrði nýtt skriflegt ferli hafið með skuldabréfaeigendum um breytingar á skilmálum skuldabréfanna. Ekkert er hinsvegar minnst á það í tilkynningunni um staðfestingu undanþágunnar, sem var send út nú laust fyrir hádegi.