Á síðasta ári flutti Icelandair 344.022 farþega frá Kastrup flugvelli til Keflavíkur, og er félagið þar með 14. umsvifamesta félagið á vellinum. Þetta er fækkun um rúmlega 12 þúsund farþega, eða úr 356.438 frá árinu 2017, og þar með fellur félagið niður um sæti, úr því 13. á lista yfir umsvifamestu félögin á flugvellinum sem Túristi birtir á vef sínum.

Þar má finna annað íslenskt félag, sem er hið nú gjaldþrota Primera Air, sem var í 19. sæti. Wow air er hins vegar ekki á listanum þar sem einungis eru veittar upplýsingar um 20 stærstu félögin, en öfugt við Kaupmannahafnarflugvöll veitir Keflavíkurflugvöllur ekki samsvarandi upplýsingar.

Kærði Túristi ákvörðun Isavia um að birta ekki tölurnar til úrskurðarnefndar upplýsingamála en ekki hefur enn verið fjallað um málið. Tíu af tuttugu stærstu félögin á vellinum fljúga ekki til Íslands, þar á meðal Ryanair, KLM og Air France. Líklegt má telja að Icelandair geti unnið sig aftur upp listann því félagið hefur boðað tíðari ferðir á flugvöllinn í sumar.