Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair segir félagið nú fara yfir stöðu þriggja Boeing 737 Max 8 véla félagsins og samninga um þær að því er RÚV greinir frá.

„Það kemur til greina að leigja aðrar vélar eða hnika til í leiðakerfinu,“ segir Bogi Nils, en eins og fjallað hefur verið ítarlega um eru allar vélar félagsins af þessari gerð nú kyrrsettar, líkt og víðast hvar um heiminn.

Viðskiptablaðið sagði jafnframt frá því í morgun að bandarísk flugmálayfirvöld, þar sem Boeing vélarnar eru framleiddar, hafi gefið það út að taka muni fram í maí að prófa og uppfæra hugbúnað sem kenningar eru uppi um að beri ábyrgð á tveimur mannskæðum flugslysum véla af þeirri gerð síðustu 5 mánuði.

Kemur það til viðbótar við umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær, þar sem haft er eftir Boga Nils, að það gæti valdið vandræðum í leiðarkerfi félagsins ef bannið myndi ná framyfir páska, 21. apríl næstkomandi, vegna þess að þá vænti félagið afhendingu fleiri véla af þessari gerð.

Bogi Nils segir það koma til greina að grípa til aðgerða gagnvart flugvélaframleiðandanum, líkt og Norwegian hefur boðað að það muni gera. „Það á eftir að fara í gegnum samninga. Ef vélarnar eru ekki að uppfylla væntingar okkar þá óskum við eftir leiðréttingu á því,“ segir Bogi Nils sem væntir þess að félagi hafi svipaða samninga og önnur félög.

„Við förum alveg sömu leið og önnur flugfélög. Þetta gerist bara þegar upplýsingar liggja fyrir og sá kostnaður sem þetta kann að valda.“ Eftir nokkra hækkun bréfa Icelandair í gær, í kjölfar mikillar lækkunar fyrr í vikunni, hafa bréf félagsins nú lækkað um 5,33% til viðbótar það sem af er morgni, þó einungis í 55 milljóna viðskiptum.

Er gengið þegar þetta er skrifað 7,05 krónur, en lægst fór það á þriðjudaginn í 6,73 krónur, sem var þá 18,7% lækkun frá lokagengi bréfanna á föstudag, 8,28 krónur. Lækkunin nú stendur í 14,9% í vikunni.