Síðasta viðskiptadag vikunnar var heldur rólegra yfir kauphöllinni en undanfarna daga, en Úrvalsvísitalan náði 1.706,63 stigum eftir 0,08% hækkun í 2,2 milljarða króna veltu. Aðalvísitala skuldabréfa stóð hins vegar í stað í 1.354,76 stigum eftir 3,5 milljarða viðskipti.

Gengi bréfa Icelandair Group hækkuðu mest, eða um 2,21% í 541 milljón króna viðskiptum og standa bréfin nú í 16,20 krónum. Næst mest hækkun var á gengi bréfa Fjarskipta, móðurfélags Vodafone, sem hækkaði um 1,03% í 399 milljón króna viðskiptum. Fæst nú hvert bréf félagsins á 68,60 krónur.

Mest lækkun var á gengi bréfa Skeljungs, sem lækkuðu um 1,45% niður í 7,48 krónur hvert bréf í 111 milljón króna viðskiptum. Næst mest var lækkunin á bréfum Eimskipafélagsins eða 1,09% og svo kom VÍS með 0,87% lækkun, en hvort tveggja var í óverulegum viðskiptum.

Bréf Símans lækkuðu hins vegar um 0,71% í 357 milljón króna viðskiptum niður í 4,18 krónur hvert bréf.

Vísitölur Gamma

Hlutabréfavísitala Gamma hækkaði lítillega í dag í 2,2 milljarða viðskiptum.

Skuldabréfavísitala Gamma hækkaði lítillega í dag í 1,8 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði lítillega í 0,2 milljarða viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði lítillega í 1,6 milljarða viðskiptum.