Aðeins tvö félög lækkuðu í viðskiptum dagsins á hlutabréfamarkaði kauphallar Nasdaq á Íslandi í dag. Heildarvelta í viðskiptum dagsins nam 3,6 milljörðum króna og hækkaði úrvalsvísitalan OMXI10 um 0,14% og stendur fyrir vikið í 2.632,94 stigum.

Annan daginn í röð hækkaði gengi hlutabréfa Icelandair mest allra, en gengishækkun bréfanna nam 3,27% og var lokagengi bréfanna 1,58 krónur á hlut. Velta bréfanna nam um 83 milljónum. Gengi hlutabréfa Sjóvár hækkaði næst mest, um 2,49% í 126 milljóna króna viðskiptum, og þá hækkaði gegni bréfa í Kviku banka um 2,06%.

TM og Marel voru einu félögin hverra gengi lækkaði í viðskiptum dagsins, gengi bréfa TM lækkaði um 0,88% og bréf Marel um 0,3%. Hlutabréfaverð Regins stóð í stað.

Mest var velta með bréf Marel en viðskipti með bréfin námu 881,4 milljónum. Þá nam velta með hlutabréf Arion banka 449,8 milljónum og velta með bréf Kviku banka 389,9 milljónum.

Af gjaldeyrismarkaði er helst að frétta að íslenska krónan veiktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum í dag, mest gagnvart breska pundinu sem er nú 0,64% dýrara en í gær og fæst á 177 krónur. Dollarinn styrktist um 0,4% og fæst nú fyrir 129,54 krónur.