Gengi hlutabréfa Icelandair Group hækkaði um 6,76% í 416 milljóna viðskiptum í Kauphöllinni í dag og hefur gengi bréfa félagsins hækkað um 11% í vikunni sem leið.

Grænt var á flestum tölum á hlutabréfamarkaði í dag en 15 félög af tuttugu hækkaðu í verði. Bréf Eikar hækkar hækkuðu um 3,4% í 278 milljóna viðskiptum og þá hækkuðu bréf Arion banka um 2,01% í 243 milljóna viðskiptum.

Mest lækkun varð á bréfum Kviku banka sem lækkuðu um 1,43% í 125 milljóna viðskiptum.

Velta á markaðnum nam rúmlega 3 milljörðum í viðskiptum dagsins en mest velta var með bréf Festi sem hækkuðu um 0,36% í 521 milljóna viðskiptum. Flest viðskipti voru hins vegar með bréf Icelandair eða 45 talsins. Þá hækkaði úrvalsvísitalan OMXI10 um 1,57% og stendur nú í 2.158,93 stigum.

Icelandair hækkaði mest í vikunni

Þegar litið er yfir vikuna sem leið hækkaði gengi bréf Icelandair um 11% í vikunni í samtals 954 milljóna viðskiptum. Þá hækkuðu bréf Regins um 5,6% í tæplega 1,2 milljarða viðskiptum og bréf bréf Eikar um 5,4% í 819 milljóna viðskiptum. Mest lækkun varð á bréfum Kviku eða 3,7% í 383 milljóna viðskiptum.

Velta á hlutabréfamarkaði í vikunni nam tæplega 13,7 milljörðum króna. Mest velta var með bréf Festi eða 1,4 milljarðar. Flest viðskipti voru með bréf Icelandair eða 161 talsins.