Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 1,55%, upp í 1.820,31 stig, í 2,5 milljarða króna viðskiptum dagsins.
Mest var hækkun bréfa Icelandair, eða um 5,07% í 209 milljóna króna viðskiptum dagsins, en gengið fór upp í 7,46 krónur.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær lækkaði gengi bréfa félagsins um 5% eftir fréttir um kyrrsetningu Boeing 737 Max 8 véla um heim allan en í heildina hafði þá gengi bréfa félagsins lækkað um 14% það sem af er vikunni.

Næst mest var hækkun bréfa Reita, eða um 2,98% í 258 milljóna króna viðskiptum, og er gengi bréfa í fasteignafélaginu nú 21,50 krónur. Þriðja mesta hækkunin var einnig í bréfum fasteignafélags, en Eik hækkaði um 2,33% í 75 milljóna viðskiptum, og standa bréfin nú í 8,78 krónum.

Mestu viðskiptin voru eftir sem áður með bréf Marel, fyrir tæplega 1,4 milljarða króna, og hækkuðu þau í 1,25% og standa þau nú í 486,0 krónum.

Einungis þrjú félög lækkuðu í virði í kauphöllinni í dag, mest var lækkun á gengi bréfa Eimskipafélagsins, eða um 1,62% í 20 milljóna króna viðskiptum, sem færðu bréfin niður í 182,0 krónur. Einnig lækkuðu bréf Granda, um 0,65%, og bréf Símans, um 0,26%, í 15 milljóna króna og 21 milljóna króna viðskiptum. Fór gengi Granda í 30,80 krónur og Símans í 3,78 krónur.