Hlutabréf Icelandair hækkuðu um 4% í 273 milljóna króna viðskiptum í dag. Gengi flugfélagsins stóð í 2,09 krónum á hlut og hefur nú hækkað um 39% frá því að það fór niður í 1,5 krónur í byrjun mars, stuttu eftir innrás Rússa í Úkraínu. Icelandair birtir uppgjör fyrsta ársfjórðungs síðar í dag.

Hlutabréfaverð Marels hækkaði um tæplega 5% í fyrstu viðskiptum dagsins en félagið tilkynnti eftir lokun markaða í gær um 70 milljarða króna kaup á bandaríska fyrirtækinu Wenger ásamt því að birta uppgjör fyrsta fjórðungs. Gengi Marels lækkaði þó eftir sem leið á daginn og stóð í 706 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar, um 0,9% yfir lokagengi félagsins í gær.

Sjá einnig: Marel hagnast um 21,7 milljónir evra

Annan daginn í röð lækkaði Sjóvá mest allra félaga á aðalmarkaði Kauphallarinnar. Hlutabréf tryggingafélagsins féllu um 1% í dag og hafa nú lækkað um 3,5% frá lokun markaða á þriðjudaginn.