Hagnaður Icelandair Group nam 11 milljónum Bandaríkjadollara eða því sem nemur 1.150 milljónum íslenskra króna á öðrum ársfjórðungi. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri félagsins.

Tekjur á tímabilinu námu 368,9 milljónum dollara og jukust um 11% samanborið við sama tímabil í fyrra. EBITDA nam 42,3 milljónum dollara samanborið við 53,9 milljónir dollara á síðasta ári. Sætanýting í millilandaflugi var 83,6% og jókst um 2,4 prósentustig frá fyrra ári. Áherslubreytingar í vöruframboði og innleiðing hagræðingaðgerða ganga samkvæmt áætlun segir í tilkynningu frá félaginu.

Við lok tímabilsins nam handbært fé og skammtímaverðbréf 360,1 milljón dollara og voru 75,4 milljónir dollara umfram vaxtaberandi skuldir. Þá var eiginfjárhlutfall 34% í lok júní.

Icelandair Group hefur einnig hækkað EBITDA spá fyrir árið 2017. Spáin er nú á bilinu 150-160 milljónir dollara en var áður 145 til 155 milljónir dollara.

Í tilkynningu frá Icelandair Group segir Björgólfur Jóhannesson, forstjóri félagsins:

„Rekstur annars ársfjórðungs gekk vel. Vöxtur félagsins heldur áfram og við fluttum í fyrsta sinn yfir eina milljón farþega í millilandaflugi á öðrum ársfjórðungi og fjölgaði þeim um 13% milli ára. Það er ánægjulegt að sætanýtingin batnar á sama tíma og framboðið hefur verið aukið. Farþegum Air Iceland Connect fjölgar nokkuð milli ára og aukning er í leiguflugi og fraktstarfsemi. Á hótelum félagsins fjölgaði seldum gistinóttum milli ára en herbergjanýting minnkaði lítillega. Við uppfærum nú EBITDA spá okkar fyrir árið í 150-160 milljónir USD. Helsta ástæða þess er gengisþróun frá því að síðasta spá var birt.

Bókunarstaðan í júlí og ágúst er góð og aðgerðir sem gripið hefur verið til í rekstrinum ganga samkvæmt áætlun. Það eru vissulega miklar annir í íslenskri ferðaþjónustu um þessar mundir en styrking krónunnar og kostnaðarhækkanir gera það að verkum að framlegð í greininni hefur minnkað.

Félagið hefur sterka stöðu og býr yfir framúrskarandi starfsfólki sem er grunnur að velgengni þess."