Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,7% í 3,6 milljarða veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Tólf af tuttugu félögum voru græn og tvö rauð í viðskiptum dagsins. Icelandair leiddu hækkanir en gengi flugfélagsins hækkaði um 3,9% í 336 milljóna viðskiptum í dag. Hlutabréfaverð Icelandair stóð í 1,74 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar.

Á First North-markaðnum hækkaði flugfélagið Play einnig um 2,2%, þó í aðeins 4 milljóna króna veltu. Gengi Play nemur 23,5 krónum á hlut.

Mesta veltan var með hlutabréf Símans sem hækkuðu um 2,1% í 764 milljóna veltu. Hlutabréfaverð fjarskiptafélagsins stendur nú í 12,05 krónum á hlut, einungis 2,8% frá því að félagið náði sínum hæstu hæðum í 12,4 krónum þann 18. október, stuttu eftir að Síminn fór í einkaviðræður um sölu á Mílu til Ardian.

Brim lækkaði lækkaði mest allra félag í dag eða um 1,3% í 121 milljónar viðskiptum. Gengi útgerðarfélagsins er nú 77 krónur á hlut og hefur lækkað um 5,5% frá því að það náði hæstu hæðum í 81,5 krónum fyrir tveimur vikum síðan.