Hlutabréfaverð Icelandair lækkaði umtalsvert í dag eða um 7,74% í 881,6 milljón króna viðskiptum. 42 viðskipti voru með bréf félagsins í dag. Hlutabréfaverð félagsins er nú 14,9 krónur á hvert bréf. Síðastliðinn mánuð hefur gengi bréfa félagsins hækkað um 11,38%, frá áramótum hefur gengið hins vegar lækkað um tæplega þrjátíu prósentustig, og á síðastliðnu ári hefur gengi bréfa Icelandair lækkað um 41,68%. Markaðsvirði félagsins miðað við stöðuna núna er 72,4 milljarðar króna.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, segir í samtali við Viðskiptablaðið að hagræðingaraðgerðir félagsins séu fyrst og síðast að fara að skila sér árið 2018. „Við erum að undirbúa ýmsar aðgerðir. Sumar koma fyrr í gagnið en aðrar. Það eru í raun lítil áhrif á þetta uppgjör. Við höfum sagt að bætingin fyrir árið 2018 verði 30 milljónir dollara,“ segir hann.

Launakostnaður hefur hækkað

Samkvæmt nýbirtu uppgjöri félagsins fyrir annan ársfjórðung nam hagnaður félagsins 11 milljónum Bandaríkjadollara á tímabilinu, eða því sem nemur um 1.150 milljónum króna. Félagið hækkaði EBITDA spá sína fyrir árið 2017 upp í 150 til 160 milljónir dollara. Áður var spáin fyrir árið á bilinu 145 til 155 milljónir dollara. Tekjur félagsins jukust um 11% á milli ára og námu 358,9 milljónum dollara.

Björgólfur segir að þeim hjá Icelandair þykir uppgjör félagsins fyrir annan ársfjórðung sterkt. „Reksturinn er í takti við spár greiningaraðila, sjóðstreymið er sterkt, efnahagsreikningurinn er góður og framtíðarhorfur heilt yfir eru fínar,“ segir hann. „Þetta er bara spurning um tiltrú á okkur, kannski erum við of varkár á fundum með of mörg varnaðarorð. En það liggur fyrir að krónan hefur mikil áhrif á reksturinn. Stórir kostnaðarliðir eins og laun eru í krónum,“ segir Björgólfur.

Þó hefur verið bent á að hækkun á EBITDA félagsins sé að miklu leyti tilkomna vegna ytri þátta, til að mynda lágs olíuverðs og hagstæðu gengi krónunnar. Þó eru vísbendingar uppi að markaðurinn hafi ekki ýkja mikla tiltrú á því að fyrirtækið geti stemmt stig við kostnaðarhækkanir. Launakostnaður félagsins hækkaði til að mynda talsvert yfir spá greiningaraðila, eða um 39% á milli ára. Í samtölum við markaðsaðila kemur fram að uppgjör félagsins hafi ekki verið í takt við væntingar markaðarins.

Þessi heimur breytist hratt

Nýverið var greint frá áherslubreytingum hjá félaginu, en Icelandair ákvað að loka söluskrifstofum félagsins ytra næsta vetur . Þetta er liður í því að færa sölu- og markaðsstarf félagsins til Íslands. Þegar Björgólfur er spurður að því hvort að félagið komi til með að leggja meiri áherslu á hinn stafræna heim svarar hann:

„Við höfum verið að vera leggja meiri áherslu á stafræn (e. digital) mál. Þessi heimur er að breytast mjög hratt. Það er mikill hraði í öllu því sem við erum að gera. Við þurfum að horfa til þess að geta verið fljótari að bregðast við og stytta boðleiðir. Það er einn angi af þessu að þétta deildinni meira saman og ná ákvörðunum í tíma og taka þær nægilega snemma,“ segir hann.