Icelandair féll um 17,86%, niður í 3,45 krónur í viðskiptum dagsins, sem þó námu einungis um 50 milljónum króna. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gærkvöldi býst félagið við að fækka flugferðum um fjórðung á háannatíma sumarsins vegna áhrifa af útbreiðslu Covid 19 veirusýkingarinnar.

Þar með hefur lokagengi bréfa félagsins ekki verið lægra síðan 11. janúar 2011, þegar það fór í 3,24 krónur, eða í gott betur en 9 ár og tvo mánuði. Síðan þá fór lokagengið hæst í 38,9 krónur þann 28. apríl árið 2016, en síðan þá hefur verðið lækkað um ríflega 91%.

Næst mest lækkun var á gengi bréfa Kviku banka, eða um 11,28%, í álíka miklum viðskiptum eða fyrir 51 milljón krónur, og fór gengi bankans niður í 7 krónur. Þriðja mesta lækkunin var svo á gengi hins bankans í kauphöllinni, Arion banka, sem lækkaði um 7,96%, niður í 59 krónur, í 211 milljóna króna heildarviðskiptum.

Úrvalsvísitala kauphallarinnar lækkaði í dag um 5,22%, niður í 1.631,28 stig, en heildarviðskiptin á hlutabréfamarkaðnum námu 2,4 milljörðum króna. Mestu viðskiptin voru eins og svo oft áður með bréf Marel, eða fyrir 611,4 milljónir króna, en gengi bréfa félagsins lækkaði um 4,56%, niður í 481 krónu í viðskiptunum.

Næst mestu viðskiptin voru með bréf Festi, eða fyrir 286,2 milljónir króna, en lækkun á gengi bréfanna nam 1,89%, og fóru þau niður í 104 krónur. Þriðju mestu viðskiptin voru svo með bréf Símans, eða fyrir 285,2 milljónir króna, en þau lækkuðu um 3,33%, niður í 4,93 krónur.

Einu bréfin sem ekki lækkuðu í verði voru bréf Heimavalla sem stóðu í stað í 1,46 krónum, í 187 þúsund króna viðskiptum. Minnsta lækkunin var hins vegar á gengi bréfa Haga, sem lækkuðu um 0,80%, niður í 43,65 krónur, í 132 milljóna króna viðskiptum.

Japanska jenið 28% dýrara en íslenska krónan

Krónan veiktist gagnvart flestum viðskiptamyntum sínum í dag, nema breska pundinu sem lækkaði um 0,22% gagnvart krónunni, og fæst það nú á 166,79 krónur, sem og gagnvart norsku krónunni sem lækkaði um 0,78% gagnvart þeirri íslensku og fæst hún nú á 13,26 íslenskar krónur.

Hins vegar styrktist evran um 1,40%, eða í 151,60 krónur í dag og danska krónan fylgdi eins og endranær í humátt á eftir og styrktist um 1,42%, í 20,287 krónur. Bandaríkjadalur styrktist um 0,53%, og fæst nú á 135,95 krónur og japanska jenið styrktist um 2,40%, í 1,2836 krónur, en það hefur löngum verið á pari við krónuna en er núna ríflega 28% sterkara.