Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði enn frekar í dag, en um sem nemur 0,25% og endaði í 1.778,78 stigum. Hún hefur nú lækkað um 5,40% það sem af er ári.

Einungis hækkuðu þrjú úrvalsvísitölufélög. Hagar hækkuðu um 0,11%, Reitir fasteignafélag um 0,12% og Marel hf. um 0,96%. Gengi bréfa í Marel stendur nú í 262,50 krónum. Eimskip lækkaði um 0,74% í 26,8 milljón króna viðskiptum og HB Grandi lækkaði um 0,64% í 406 þúsund króna viðskiptum.

Icelandair Group mun birta fjórðungsuppgjör félagsins fljótlega eftir lokun markaða. Bréfin í félaginu lækkuðu um 1,46% og er gengi þeirra nú 30,35 krónur á hlut.

Lítið var um viðskipti með önnur félög á aðalmarkaði. Tryggingafélögin hækkuðu þó nokkuð. Sjóvá hækkaði um 0,78% og er hver hlutur nú skráður á genginu 11,59. Tryggingamiðstöðin hækkaði um 1,93% og er gengi bréfanna núna 21,10. Heildarviðskipti með bréfin í Sjóvá voru rúmlega 25,8 milljónir en viðskiptin með TM bréfin voru rúmlega 526,5 milljónir.

Aðalvísitala skuldabréfa hækkaði um 0,02% í 5,3 milljarða skuldabréfaviðskiptum.