Úrvalsvísitalan féll um 1,2% í fjögurra milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar og er 3,6% lægri en fyrir ári síðan. Sautján af tuttugu félögum aðalmarkaðarins lækkuðu í viðskiptum dagsins og gengi hinna þriggja stóð óbreytt.

Icelandair leiddi lækkanir en hlutabréfaverð flugfélagsins féll um 4,3% í 87 milljóna veltu og stóð í 1,80 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar. Gengi félagsins hefur nú fallið um tæp 14% frá birtingu uppgjörs fyrsta ársfjórðungs fyrir rúmri viku síðan. Flugfélagið birti flutningatölur eftir lokun markaða en þar kom fram að flugframboð í apríl hafa verið 71% af framboðinu í apríl 2019 og sætanýting í millilandaflugi var 76%.

Hlutabréf Marels lækkuðu um 0,6% í 634 milljóna veltu og er gengi félagsins komið niður í 668 krónur á hlut. Hlutabréfaverð Marels hefur ekki verið lægra síðan í maí 2020.

Gengi Kviku banka lækkaði um 2,4% í dag og lækkaði því alls um 8,4% í vikunni. Hlutabréfaverð Kviku hefur fallið um 22,4% frá áramótum. Íslandsbanki, sem hagnaðist um 5,2 milljarða á fyrsta fjórðungi , lækkaði um tæplega eitt prósent í hálfs milljarðs viðskiptum í dag. Mesta veltan á íslenska hlutabréfamarkaðnum var með bréf Arion sem lækkuðu um 0,7%.