Úrvalsvísitalan lækkaði um eitt prósent í þriggja milljarða króna veltu Kauphallarinnar í dag. Fjórtán af nítján félögum hlutabréfamarkaðarins lækkuðu í viðskiptum dagsins.

Hlutabréf Icelandair lækkuðu um 2,4% í 201 milljón króna viðskiptum og standa nú í 1,43 krónum á hlut. Gengi félagsins fór lægst í 1,37 krónur á hlut í dag en hækkaði aftur rétt fyrir lokun Kauphallarinnar. Flugfélagið tilkynnti í dag um að tvær Boeing 737 MAX vélar verði teknar í rekstur á ný í mars en vélarnar hafa verið kyrrsettar í tæplega tvö ár.

Mest lækkaði gengi Reita eða um 3% í 156 milljóna króna veltu. Fasteignafélagið hefur lækkað um 15% á tæpum þremur vikum.

Fjögur félög hækkuðu í dag en það voru Iceland Seafood, Síminn, Sýn og TM. Af þeim hækkaði TM mest eða um 3,1%. Gengi Kviku stóð óbreytt í 18,7% í 211 milljóna króna viðskiptum.

Mesta veltan var enn og aftur með bréf Arion banka sem lækkuðu um 1,8% í 556 milljóna króna viðskiptum og standa nú í 122,8 krónum á hlut. Næst mesta veltan var með hlutabréf Marel sem lækkuðu um eitt prósent í 406 milljóna króna veltu.