Icelandair hefur endurnýjað samning við bandaríska flugfélagið JetBlue um sammerkt flug félaganna. Um er að ræða samstarfssamning sem felur í sér að bæði flugfélögin geta selt og gefið út flugmiða hvort hjá öðru.

Þannig geta viðskiptavinir Icelandair keypt einn farseðil frá Íslandi til fjölda áfangastaða JetBlue í Bandaríkjunum, karabíska hafinu, Mið- og Suður-Ameríku. Að sama skapi munu viðskiptavinir JetBlue geta keypt miða til Íslands og fjölda áfangastaða Icelandair í Evrópu.

Samningur Icelandair og JetBlue, sem fyrst tók gildi árið 2011, hefur nú verið endurnýjaður til ársins 2024. Þá hafa viðskiptavinir félaganna frá árinu 2017 átt þess kost að safna vildarpunktum hjá báðum félögum.

Bogi Nils Bogason , forstjóri Icelandair segir samstarfið við JetBlue vera lið í að bjóða fjölbreyttari þjónustu og auka þægindi fyrir viðskiptavini félagsins.

„Með því að tengja leiðakerfin okkar saman getum við boðið viðskiptavinum okkar aukna valmöguleika þegar kemur að tengingum í Bandaríkjunum, karabíska hafinu, sem og Mið- og Suður-Ameríku. Á móti geta viðskiptavinir JetBlue nýtt sér tengingar Icelandair til Íslands og áfangastaða okkar í Evrópu með einföldum hætti.“

Robin Hayes , forstjóri JetBlue tekur í sama streng.

„Langt og farsælt samstarf okkar við Icelandair styrkir leiðakerfi félaganna beggja vegna Atlantshafsins og bætir aðgengi viðskiptavina JetBlue að Íslandi og öðrum áfangastöðum í Evrópu”, segir Robin Hayes forstjóri JetBlue.  „Með framúrskarandi þjónustu og hagstæðum fargjöldum, mun samstarf okkar áfram stuðla að aukinni eftirspurn eftir flugi yfir Norður-Atlantshafið í aðdraganda að áætluðu flugi JetBlue á þessum markaði 2021.”

JetBlue Airways, sem er með höfuðstöðvar í New York í Bandaríkjunum, flýgur að meðaltali þúsund flug á dag, flytur yfir 42 milljónir farþega á ári til um 100 áfangastaða í Bandaríkjunum, karabíska hafinu, og Mið- og Suður-Ameríku.