Flugfreyjum og flugþjónum í hlutastarfi hjá Icelandair hefur verið gert að ákveða hvort þær vilji hefja fullt starf hjá flugfélaginu frá og með 1. janúar eða vera sagt upp störfum að því er fram kemur í tölvupósti sem sendur var á flugfreyjur félagsins nú fyrir skömmu. Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair nær ákvörðunin til 118 af um 900 fastráðnum flugfreyjum og flugþjónum félagsins.

Í tölvupóstinum kemur fram að ákvörðunin sé tekin í ljósi rekstrarstöðu Icelandair og breytinga á leiðakerfi félagsins, en útlit er fyrir að tap verði á rekstri Icelandair á þessu ári.

Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, segir í samtali við Viðskiptablaðið að Flugfreyjufélagið mótmæli uppsögnunum harðlega og telji þær brot á gildandi kjarasamning þar sem í honum sé að finna ákvæði um hlutastarfi.

Breytingin nær ekki til flugfreyja sem eru 55 ára og eldri, hafi starfað lengur en 30 ár hjá Icelandair eða eru snéru aftur úr barneignarleyfi á síðustu tveimur árum, en þeir starfsmenn eigi rétt á hlutastarfi samkvæmt kjarasamningi. Icelandair segir einnig að eftir sem áður verði tekið mið af sérstökum persónulegum aðstæðum sem geta tímabundið valdið því að starfsmaður eigi erfitt með að sinna 100% starfi.