Listi yfir 300 stærstu fyrirtæki landsins er birtur í bók Frjálsrar verslunnar sem kom út í dag. Samkvæmt listanum er Icelandair Group sem fyrr stærsta fyrirtæki landsins en óhætt er segja að síðasta ár hafi reynst félaginu erfitt.

Icelandair Group er sem fyrr stærsta fyrirtæki landsins en óhætt er segja að síðasta ár hafi reynst félaginu erfitt. Tap félagsins á síðasta ári nam 55,6 milljónum dollara eða um 6 milljörðum íslenskra króna og versnaði afkoman um 93 milljónir dollara frá fyrra ári eða um rúmlega 10 milljarða íslenskra króna. Verri afkoma Icelandair skýrðist bæði af ytri og innri þáttum í rekstri félagsins. Mikil samkeppni hefur verið á helstu mörkuðum félagsins, þá sérstaklega í flugi yfir Atlantshafið sem hefur leitt til þess að verð á flugfargjöldum hefur verið lágt á sama tíma og olíuverð hefur hækkað frá því sem það var sem lægst árið 2016.

Þá jókst rekstrarkostnaður umtalsvert umfram tekjuvöxt á síðasta ári sem kom meðal annars til af auknum launakostnaði, hærra olíuverði auk þess sem kostnaður vegna truflana í leiðakerfi félagsins nam um 45 milljónum dollara á síðasta ári. Ójafnvægi í leiðakerfi félagsins sem fólst í því að framboð á flugi til Norður-Ameríku var ekki í samræmi við framboð til Evrópu hafði einnig töluverð áhrif á félagið auk þess sem stjórnendur félagsins hafa greint frá því að mistök hafi verið gerð þegar ráðist var í breytingar á sölu- og markaðsstarfi félagsins árið 2017 sem meðal annars fólst í því að nær öllum söluskrifstofum félagsins var lokað.

Mikið gengið á

Síðustu ár hafa svo sannarlega verið viðburðarík í rekstri Icelandair og það sama má segja um síðastliðið ár. Í byrjun nóvember árið 2018 var ljóst að breytinga væri að vænta í samkeppnisumhverfi þess þegar greint var frá því að Icelandair hefði fest kaup á öllu hlutafé í WOW air en haustið 2018 var orðið ljóst að fjárhagsstaða WOW air stæði tæpt.

Í lok nóvember var hins vegar fallið frá kaupunum og WOW air hóf viðræður við Indigo Partners um fjárfestingu í félaginu. Þegar slitnaði upp úr þeim viðræðum um miðjan marsmánuð í ár hóf Icelandair aftur viðræður um kaup á félaginu en þeim var svo slitið þremur dögum seinna eða þann 24. mars og fjórum dögum seinna varð WOW air gjaldþrota.

Þrátt fyrir að stærsti samkeppnisaðili Icelandair væri horfinn á braut var þó annað vandamál sem blasti við félaginu og átti vægast sagt eftir að vinda upp á sig. Rúmlega tveimur vikum fyrir fall WOW kyrrsetti Icelandair Boeing 737 MAX vélar sínar sem á þeim tíma voru þrjár talsins eftir að samskonar vélar Lion Air og Ethiopian Airlines höfðu farist með nokkurra mánaða millibili. Upprunalega var búist við því að vélarnar myndu fara aftur í loftið júní á þessu ári, en eftir að endurkomu þeirra hefur verið frestað í nokkur skipti er nú gert ráð fyrir að vélarnar fari aftur í loftið í byrjun mars á næsta ári.

Óhætt er að segja að kyrrsetningin hafi litað rekstur félagsins á þessu ári. Icelandair hefur nú þegar gert tvisvar sinnum samkomulag við Boeing um skaðabætur en ekki hefur verið gefið upp hve há bótaupphæðin er en Icelandair telur áhrifin á rekstrarhagnað (EBIT) nema um 110-120 milljónum dollara.

Segja má að frá því í júní fram til loka október hafi hlutabréfaverð Icelandair verið í nær frjálsu falli þegar það lækkaði um 50% á tímabilinu en í millitíðinni hafði uppgjör félagsins fyrir annan ársfjórðung meðal annars verið töluvert undir væntingum greiningaraðila. Hlutabréfaverð félagsins hefur hins vegar tekið kipp eftir að Icelandair birti sína fyrstu hækkun á afkomuspá í tvö ár þann 27. október en þá var EBIT spá fyrir árið í ár hækkuð um 35 milljónir dollara og gerir félagið nú ráð fyrir að rekstrartap verði á bilinu 30-40 milljónir króna á árinu, þegar ekki hefur verið tekið tillit til MAX-áhrifanna.

Fyrri spá gerði ráð fyrir rekstrartapi upp á 70-90 milljónir dollara. Þá hafa stjórnendur félagsins gefið út að horfur fyrir árið í ár hafi batnað og grunnrekstur félagsins sé að styrkjast meðal annars vegna umbóta í leiðakerfinu, bættri tekjustýringu og betri nýtingu starfsfólks.

Nánar er fjallað um málið í bókinni 300 stærstu sem var að koma út. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .