Icelandair Group tapaði 2,7 milljörðum króna á síðasta ársfjórðungi, samanborið við milljarð króna hagnað árið áður, þrátt fyrir að heildartekjur hafi aukist um 9%. Tekjurnar námu 42 milljörðum, samanborið við 38,6 á sama fjórðungi í fyrra. EBITDA félagsins féll um 64% frá þeim tæpu 4,3 milljörðum sem hún nam í fyrra, og var aðeins rúmur einn og hálfur milljarður.

Helstu ástæður versnandi afkomu eru sagðar þrýstingur á fargjöld, lakari sætanýting og einskiptiskostnaður vegna truflana í flugáætlun.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair sagði félagið undanfarið hafa „unnið að viðamiklum breytingum á félaginu sem munu skila sér í enn sterkara fyrirtæki til framtíðar. Þar hefur allt verið til skoðunar, meðal annars skipulag, stefna, leiðakerfi, flotauppbygging, fargjaldaflokkar og á hvaða sviðum félagið ætlar að starfa til framtíðar. Við höfum hafið ferli sem miðar að því að selja hótelreksturinn, í skoðun er uppbygging nýs tengibanka á Íslandi meðfram núverandi tengibanka og nýjar Boeing MAX vélar komu í flotann fyrr á árinu. Þá hafa verið gerðar umfangsmiklar breytingar á skipulagi félagsins. Markmiðið er að skerpa enn frekar á áherslum okkar i sölu og markaðsmálum annars vegar og þjónustu við viðskiptavini hins vegar og styrkja þannig félagið.

Afkoma annars ársfjórðungs er lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Spár okkar um hækkandi meðalverð á síðari hluta ársins hafa hingað til ekki gengið eftir. Þetta gerist þrátt fyrir að olíuverð hafi hækkað mikið. Samkeppnin á mörkuðum hefur sjaldan verið meiri sem kemur fram með þessum hætti. Við gerum áfram ráð fyrir að til lengri tíma muni hækkun aðfanga leiða til hækkunar meðalverðs.

Aðstæður í rekstri flugfélaga eru vissulega krefjandi um þessar mundir. Icelandair Group er hins vegar í góðri stöðu til að takast á við áskoranir og nýta tækifæri sem upp kunna að koma við slíkar aðstæður.“