Icelandair tapaði 49,7 milljónum dala eða um 6,5 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi. Heimsmarkaðsverð eldneytis jókst um 75% að meðaltali frá sama tímabili í fyrra. Tekjur flugfélagsins jukust verulega frá fyrra ári en farþegatekjur áttfölduðust á milli ára.

„Afkoma fjórðungsins var í takt við væntingar stjórnenda en ýmsir þættir höfðu áhrif á rekstrarniðurstöðuna, svo sem mikil hækkun eldsneytisverðs, áhrif ómikron afbrigðisins á eftirspurn og umtalsverður útlagður kostnaður á fjórðungnum í tengslum við undirbúning metnaðarfullrar flugáætlunar okkar í sumar,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilkynningu félagsins.

Rekstrartekjur Icelandair námu 158,7 milljónum dala, eða um 20,8 milljörðum króna miðað við gengi dagsins, sem er um 177% aukning frá sama tíma í fyrra. Til samanburðar voru rekstrartekjur Icelandair 249 milljónir dala á fyrsta ársfjórðungi 2019.

Í tilkynningu Icelandair segir að flugframboð á fjórðungnum hafi verið 58% af framboði sama tímabils á árinu 2019. Sætanýting var 67,2% á fjórðungnum en félagið bendir á að enn gætti áhrifa ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar. Flugfélagið réði til sín tæplega 200 starfsmenn á fjórðungnum.

Þá hefur Icelandair numið úr gildi félagsins afkomuspá fyrir árið sem kynnt var í byrjun febrúar. Þar var gert ráð fyrir rekstrarhagnaði (EBIT) upp á 3-5% af rekstrartekjum.

Þremur vikum síðar réðust Rússar  inn í Úkraínu og olíuverð hækkaði umtalsvert. Icelandair segir nú að það búist við að félagið verði rekið með hagnaði á næstu tveimur fjórðungum og þá nokkuð meiri hagnaði á þriðja ársfjórðungi, sem jafnan er stærsti fjórðungurinn í ferðaþjónustunni. Hins vegar sé töluverð óvissa um horfurnar á fjórða ársfjórðungi og því sé afkomuspáin numin úr gildi. Icelandair stefnir að því að sætaframboð félagsins verði 77% af árinu 2019 á öðrum ársfjórðungi og 85% af framboði ársins 2019 á þriðja ársfjórðungi.

Icelandair segir í tilkynningu að bókunarstaðan gefi merki um töluverða uppsafnaða eftirspurn, sér í lagi í flugi til og frá Íslandi en tengimarkaðurinn yfir Atlantshafið fari hægar af stað. Vonir standa til að það breytist þegar slakað verði á reglum um Covid próf í Bandaríkjunum, líkt og raunin hafi verið í Kanada.

Sjá einnig: Segir upp lánalínu með ríkisábyrgð

Handbært fé frá rekstri nam 10,7 milljörðum króna samanborið við handbært fé til rekstrar að fjárhæð 5,8 milljarðar króna á fyrsta ársfjórðungi 2021. Lausafjárstaða Icelandair í lok mars var 49 milljarðar króna.

Bogi Nils Bogason, forstjóri:

„Við héldum áfram að ná árangri í uppbyggingu félagsins á fyrsta ársfjórðungi og sætaframboð var nífalt meira en á sama tíma í fyrra, þrátt fyrir áhrif ómíkron afbrigðisins á ferðalög að undanförnu. Með markvissri stjórnun leiðakerfisins og með því að nýta þann sveigjanleika sem einkennir okkar starfsemi náðum við 74% sætanýtingu í marsmánuði. Afkoma fjórðungsins var í takt við væntingar stjórnenda en ýmsir þættir höfðu áhrif á rekstrarniðurstöðuna, svo sem mikil hækkun eldsneytisverðs, áhrif ómikron afbrigðisins á eftirspurn og umtalsverður útlagður kostnaður á fjórðungnum í tengslum við undirbúning metnaðarfullrar flugáætlunar okkar í sumar. Ég vil þakka starfsfólki okkar sérstaklega sem hefur unnið ötullega við að leysa úr fjölbreyttum og krefjandi verkefnum á undanförnum mánuðum.

Bókunarstaðan fyrir sumarið er góð á öllum mörkuðum okkar. Við gerum ráð fyrir að í öðrum ársfjórðungi muni flugáætlun okkar nema um 77% af áætlun okkar árið 2019 og um 85% í þriðja ársfjórðungi. Nú þegar við komum út úr heimsfaraldrinum er ljóst að Ísland er mjög eftirsóttur áfangastaður og er heildarframboð flugs í gegnum Keflavíkurflugvöll umfram það sem það var árið 2019. Þessi þróun er einnig vegna þess að framboð er að færast á milli markaða vegna ýmissa ytri þátta í alþjóðaumhverfinu sem hafa áhrif á flugstarfsemi þessi misseri. Það sem mun núna skipta sköpum er sú áhersla sem við og íslensk ferðaþjónusta höfum lagt á að viðhalda innviðum og sveigjanleika á meðan á heimsfaraldrinum stóð. Það er mikilvægt að við séum öll tilbúin að mæta þessari miklu eftirspurn og taka vel á móti ferðamönnum í sumar.

Þrátt fyrir að við stöndum frammi fyrir ýmsum áskorunum horfum við bjartsýn til framtíðar. Það er uppsöfnuð ferðþörf á öllum okkar mörkuðum og fólk er byrjað að ferðast á ný.“