Nóg var um að vera í viðskiptum dagsins á aðalmarkaði Kauphallar Nasdaq á Íslandi og nam heildarvelta viðskipta dagsins um 3,5 milljörðum króna. OMXI10 úrvalsvísitalan lækkaði um 1,71% í viðskiptum dagsins og stendur hún nú í 1.600,85 stigum.

Gengi hlutabréfa Icelandair hækkaði mest í viðskiptum dagsins, eða um 10% í 60 milljóna króna veltu. Stendur gengi bréfa félagsins nú í 3,3 krónum á hlut. Ekkert félag komst með tærnar þar sem Icelandair var með hælana hvað hækkanir varðar en gengi bréfa Iceland Seafood hækkaði næst mest, um 2,78% í aðeins eins milljón króna veltu.

Gengi hlutabréfa Arion banka lækkaði mest í viðskiptum dagsins, eða um 7,8% í 808 milljóna króna veltu. Næst mest lækkaði gengi bréfa Sjóvá, um 5,88% í 1,2 milljarða veltu. Líkt og sjá má stóðu þessi félög því fyrir ríflega helmingi heildarveltu viðskipta á aðalmarkaði í dag.