Gengi hlutabréfa í kauphöll Nasdaq á Íslandi hefur sveiflast mikið undanfarna daga, en Icelandair hefur nú hækkað um 10,61%, upp í 3,65 krónur, í þó ekki nema 40 milljóna króna viðskiptum. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur gengi flugfélagsins og annarra félaga í kauphöllinni verið brokkgengt síðustu daga vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á ferðaþjónustu og flugleiðir.

Úrvalsvísitalan hækkaði í dag um 3,30%, upp í 1.653,65 stig, í 2,8 milljarða heildarviðskiptum, en þar af voru mestu viðskiptin með bréf VÍS, eða fyrir 1.469 milljónir króna.

Hækkaði gengi bréfa vátryggingafélagsins um 2,05% í viðskiptunum, upp í 8,45 krónur, en Fréttablaðið sagði frá því í morgun að breska eignastýringarfélagið Miton hefði selt 9,1% í félaginu fyrir 1.380 milljónir. Síðar í dag kom í ljós að lífeyrissjóðurinn Gildi hefði keypt rúmlega 5% hlut á 845 milljónir króna í félaginu.

Næst mest viðskipti voru svo með bréf Marel, eða fyrir 595,2 milljónir króna, en gengi bréfa félagsins hækkuðu jafnframt næst mest, eða um 5,63%, upp í 507 krónur. Þriðja mesta hækkunin var svo á gengi annars tryggingafélags, Sjóvá, en hún nam 5,15%, upp í 14,30 krónur, í 60 milljóna króna viðskiptum.

Þrettán félög hækkuðu í virði í kauphöllinni í dag, tvö stóðu í stað, en sex félög lækkuðu, þar af var lækkun á gengi bréfa Brims mest, eða um 2,15%, í 60 milljóna króna viðskiptum og fór gengið niður í 41 krónu.

Næst mest lækkun var á gengi bréfa Sýnar, eða um 1,88%, niður 23,45 krónur, í 103 milljóna króna viðskiptum og þriðja mesta lækkunin var svo á gengi bréfa Skeljungs, eða um 1,32%, niður í 7,50 krónur í 45 milljóna króna viðskiptum.

Krónan styrktist gagnvart evrunni en veiktist gagnvart engilsaxnesku myntunum

Krónan veiktist gagnvart bæði Bandaríkjadal og breska sterlingspundsins, en hún styrktist gagnvart evru, svissneskum franka, japanska jensins og hinna norðurlandakrónanna.

Þannig nam veiking evrunnar gagnvart krónu 1,12%, og fór hún niður í 149,80 krónur, japanska jenið veiktist um 1,59%, og fór í 1.2699 krónur og svissneski frankinn um 1,07% og fór niður í 142,28 krónur.

Bandaríkjadalurinn styrktist um 0,13%, upp í 139,83 krónur, og breska pundið styrktist um 0,12%, upp í 163,18 krónur.