Öll skráð félög hækkuðu í viðskiptum dagsins í Kauphöllinni í dag en heildarveltan á aðalmarkaði hlutabréfa í dag nam 2,8 milljörðum króna. Aðilar á markaði segja að um eðlilega þróun sé að ræða og enginn einn atburður hafi hrint henni af stað. Byrjunin á árinu hafi verið virkilega slæm á hlutabréfamarkaðnum hér á landi á meðan erlendir markaðir hafi verið nokkuð sterkir.

Mest hækkun var á verði á hlutabréfum í Marel en hækkunin nam 3,95% í 600 milljóna króna viðskiptum. Næst mest hækkaði Origo en hækkunin nam 3,82% í 26 milljóna króna viðskiptum.

Minnst hækkun var hjá Sjóvá en hún nam 0,68% í 13 milljóna króna viðskiptum. Næst minnst hækkun var hjá HB Granda en hún nam 0,77% í 11 milljóna króna viðskiptum.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 3,37% í viðskiptum dagsins.