Í Fjármálastöðuleika, riti Seðlabankans, kemur fram að svo virðist sem verð á iðnaðarhúsnæði hafi ekki hækkað mikið í verði. Gögn Frjálsrar verslunar benda aftur á móti til þess að fermetraverðið hafi hækkað mikið.

Samkvæmt riti Seðlabankans er raunverð atvinnuhúsnæðis nú hátt í sögulegu samhengi og jafnt hátt og það var árið 2007. Í ritinu segir að „greinilegust hefur verðhækkunin verið á verslunar- og skrifstofuhúsnæði en einnig töluverð á vörugeymslum og sérhæfðu húsnæði. Verð á gistirými virðist hafa hækkað talsvert en ósamfelld verðmyndun gerir túlkun erfiða. Iðnaðarhúsnæði virðist ekki hafa hækkað mikið í verði.“

Þetta er ekki í samræmi við þau gögn sem Frjáls verslun hefur undir höndum. Hægt var að kaupa geymslu- og iðnaðarhúsnæði á árunum 2013-2015 fyrir rúmar 100 þúsund krónur á fermetra. Í dag fæst sambærilegt húsnæði ekki undir 220 þúsund krónum og lítið framboð er af slíku húsnæði, bæði til sölu og leigu. Hins vegar er enn nokkuð offramboð af skrifstofuhúsnæði. Vísbendingar eru þó um að tómt skrifstofuhúsnæði fari minnkandi en það hafi hækkað hægar í verði en geymslu- og iðnaðarhúsnæðið.

Mikil eftirspurn er eftir minni iðnaðar- og geymslubilum miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu. Frjáls verslun hefur séð nokkur dæmi um að leiguverð á 200 til 400 fermetrum af slíku húsnæði í þokkalegu ástandi sé 1.800-2.200 krónur á fermetra. Um er að ræða leigusamninga í Skeifunni, Árbæ og á Ártúnshöfða. Þessi tegund húsnæðis er jafnvel orðin dýrari en skrifstofuhúsnæði í þokkalegu ástandi.

Sú skarpa hækkun, sem orðið hefur á eigna- og leiguverði á þessari tegund atvinnuhúsnæðis, er hugsanlega nægjanleg til þess að arðvænlegt sé að byggja nýtt húsnæði.

Nánar er fjallað um atvinnuhúsnæðismarkaðinn í nýju tölublaði Frjálsrar verslunar . Hægt er gerast áskrifandi með því að senda tölvupóst á netfangið [email protected] .