Fyrirtækið er stofnað árið 1977, verður því 45 ára á næsta ári, og hefur alla tíð verið rekið á sömu kennitölu. Upphaflega var þetta fjölskyldufyrirtæki en stofnandinn, Sverrir Helgason, er fallinn frá. Í dag erum við þrír eigendur sem höfum allir starfað hjá félaginu í áratugi. Ég segi nú ekki að ég sé alveg fæddur og uppalinn hér en það er þó nærri lagi. Þegar ég lauk háskólanámi kom ég hingað inn í reksturinn,“ segir Helgi Sverrisson, framkvæmdastjóri Hitastýringar.

Auk Helga eru þeir Guðmar Einarsson og Sigurður Sigurðsson eigendur að Hitastýringu en skipting á hlut þeirra er jöfn. Félagið sérhæfir sig í uppsetningu og viðhaldi á stýrikerfum fyrir hita- og loftræsikerfi. Þá er fyrirtækið leiðandi í sölu og þjónustu á kælikerfum fyrir tölvu- og tæknirými. Hjá félaginu starfa tólf starfsmenn.

„Starfsemi félagsins er í raun tvískipt. Annars vegar er um að ræða þjónustu og reglubundið viðhald á uppsettum hita- kæliog loftræstikerfum. Sá hluti snýst um að kerfin virki á sem bestan máta, en með fyrirbyggjandi viðhaldi er hægt að lækka rekstrarkostnað, lágmarka orkunotkun og tryggja heilnæmt vinnuumhverfi fyrir starfsfólk, bæði hvað loftgæði og hitastig varðar,“ segir Helgi.

Hinn þátturinn lýtur að uppsetningu nýrra kerfa en umfangið þar hverju sinni fer að miklu leyti, eðli málsins samkvæmt, eftir umsvifum í framkvæmdum hverju sinni.

„Það er meiri stöðugleiki í reglubundnu þjónustunni á meðan hinn þátturinn getur sveiflast til og frá,“ segir Helgi. Það fór ekki framhjá neinum að síðasta ár var nokkuð ólíkt því sem venjan er og hafði það áhrif á starfsemi meira og minna allra félaga hér á landi. Hitastýring var þar engin undantekning.

„Covid hafði vissulega áhrif á okkar starfsemi. Fyrst og fremst stafaði það af því að nokkur hluti okkar viðskiptavina er í hótel- og ferðaþjónustugeiranum. Þá bættist við að talsvert af framkvæmdum var frestað á meðan óvissan var sem mest. Sem betur fer rættist úr því og okkur tókst að vinna ágætlega úr þessu. Niðursveiflan í byrjun árs í fyrra var vitaskuld krefjandi en okkur tókst að vinna það að miklu leyti til baka eftir því sem leið á árið,“ segir Helgi.

Líkt og áður hefur verið nefnt hefur félagið alla tíð verið rekið á sömu kennitölu og því lent á fótunum þrátt fyrir efnahagslegan ólgusjó gegnum tíðina. „Ég vil nú helst ekki rifja upp hrunið en það var ansi erfiður tími. Við höfum verið frekar íhaldssamir og varfærnir í fjármálunum. Það hefur unnið með okkur þegar við lendum í áföllum eða mótbyr,“ segir Helgi.

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .