Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir líkur á því að Seðlabankinn fari að draga úr reglulegum gjaldeyrisinngripum á næstunni haldi krónan áfram að styrkjast. Þetta kom fram á kynningarfundi Seðlabankans í morgun eftir vaxtaákvörðun bankans.

Krónan hefur verið í styrkingarfasa að undanförnu líkt og Viðskiptablaðið fjallað um í síðustu viku . Styrking krónunnar gagnvart evru nemur ríflega 4% undanfarinn mánuð og um 5% frá áramótum. Ein evra kostar nú um 148 krónur eftir að hafa farið yfir 165 krónur í september og október.

Seðlabankinn hefur frá því í september selt gjaldeyri fyrir 3 milljónir evra á dag hið minnsta til að styðja við gengi krónunnar. Ásgeir sagði stefnuna hafa gengið vel og stuðlað að stöðugleika á gjaldeyrismarkaði. „Ef krónan tekur að styrkjast svona mikið förum við að draga úr þessu. Stefnunni var ætlað að skapa stöðugleika á markaði en ekki búa til hækkunarleitni á krónuna,“ segir Ásgeir.

Seðlabankinn hefur lýst yfir í byrjun hvers mánaðar hve mikil regluleg gjaldeyrisinngrip verði á markaðnum.

Ásgeir sagði það hafa sýna kosti að krónan væri að styrkjast með tilliti til að draga úr verðbólgu sem mældist 4,1% í febrúar og því út fyrir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans sem er 4%. Aðspurður tók Ásgeir tók þó einnig undir að krónan ákvarðað að einhverju leyti samkeppnisstöðuna landsins. Því getur styrking á gengi krónunnar haft neikvæð áhrif á samkeppnishæfni útflutningsgreina.