Stjórn og stjórnendur Íslandspósts ohf. (ÍSP) íhuguðu alvarlega að stefna eiganda sínum, það er íslenska ríkinu, vegna samkeppnislagabrota. Ástæðan var framboð stjórnvalda og dótturfélaga þeirra á þjónustu sem var í samkeppni við ePóst, dótturfélags Póstsins.

Saga ePósts er ákveðin harmsaga en um er að ræða þróunarverkefni ÍSP sem miðaði meðal annars að því að þróa og vinna rafrænar samskipta- og dreifingarlausnir. Var til að mynda stefnt að því að nýta kerfið til að senda launaseðla og ýmis skjöl rafrænt til einstaklinga frá fyrirtækjum og stofnunum.

Verkefninu var ýtt úr vör árið 2008 og ári síðar keypti Pósturinn kerfi af Canada Post, verðmiðinn var 1,3 milljónir kanadískra dollara eða kringum 140 milljónir íslenskar, sem nýta átti til verksins. Árið 2012 var verkefnið fært í dótturfélag eftir ábendingar Samkeppniseftirlitsins (SKE) um að betur færi á því að verkefnið væri ekki undir hatti ÍSP. Við stofnun félagsins var 247 milljóna króna samtímalán frá ÍSP til ePósts bókfært hjá félögunum.

Það er skemmst frá því að segja að ekkert gekk upp í rekstri félagsins. Fyrsta árið tapaði það 80 milljónum, eigið fé neikvætt í árslok 2013 og handbært fé ekkert. Félagið fékk 55 milljóna króna lán frá móðurfélagi sínu árið 2014 en ekkert virðist hafa verið greitt af því. Einnig er athyglisvert að á sama tíma og lánið árið 2013 var veitt ákvað ÍSP að hækka gjaldskrá einkaréttar þar sem handbært fé væri uppurið og rekstrarhalli fjármagnaður með yfirdráttarlánum. Umrætt lán til ePósts var ekki látið bera vexti og skilyrðum í samkeppnissátt við SKE, um að slíkt yrði gert, var ekki fylgt. Félagið var að lokum sameinað móðurfélaginu í fyrra á ný í trássi við skilyrði sáttarinnar. Von er á ákvörðun frá SKE vegna brotsins.

Séu vextir reiknaðir á lánið má áætla að tap ÍSP vegna ævintýrisins sé ríflega 400 milljónir króna. Engin almennileg hreyfing komst á verkefnið og árið 2015 voru starfsmenn félagsins færðir til ÍSP og verkefnum ePósts sinnt af þeim í hjáverkum. ePóstur varð undir í samkeppni við Ísland.is, vef sem forsætisráðuneytið starfrækir gjaldfrjálst, og Greiðsluveituna en þar er á ferð fyrirtæki í eigu Seðlabankans. Vildi ríkisfyrirtækið ÍSP því meina að eigandi sinn hefði brotið á sér með ólögmætri samkeppnisstarfsemi. Eru hugleiðingar þess efnis færðar í fundargerð stjórnar frá í maí 2014.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .