ÍL-sjóður, sem hét áður Íbúðalánasjóður, tapaði 10,4 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins, samanborið við 7,2 milljarða hagnað á fyrri árshelmingi 2020. Munurinn á afkomu tímabilanna skýrist annars vegar af talsvert hærri vaxtagjöldum og hins vegar jákvæðum gangvirðisbreytingum verðbréfaeigna á síðasta ári. Árshlutareikningurinn var birtur á heimasíðu ÍL-sjóðs í dag .

Vaxtatekjur jukust um eitt prósent frá fyrra ári og námu 17,1 milljarði. Vaxtagjöldin hækkuðu hins vegar um 40% á milli ára og námu 26,9 milljörðum. Hrein vaxtagjöld námu því 9,6 milljörðum á fyrstu sex mánuðum ársins en 4,3 milljörðum á fyrri hluta síðasta árs.

Eigið fé var neikvætt um 193,1 milljarða króna í lok júní og skuldir námu 875,7 milljörðum. Ríkisábyrgð er á öllum skuldum sjóðsins. Handbært fé ÍL-sjóðs lækkaði úr 41,5 milljörðum í 30,7 milljarða á milli ára.

Krafa á ríkissjóðs hækkaði um nærri 59 milljarða frá áramótum og nam um 163 milljörðum í lok júní. Þá nemur krafan á Húsnæðissjóð 128 milljörðum og krafan á HMS 3,9 milljörðum.

Í skýrslu stjórnar segir að Covid-19 farsóttin hafi haft og muni áfram hafa áhrif á rekstur sjóðsins. Í útlánum sé gert ráð fyrir skerðingu á greiðsluflæði í ár vegna tímabundinna frestana greiðslna. Til lengri tíma felast áhrifin í aukinni uppgreiðsluáhættu og hættu á auknum vanskilum. Þá hafi lækkun stýrivaxta haft neikvæð áhrif á vaxtatekjur þar sem meðallíftími fjáreigna er styttri en meðallíftími skulda.

Uppgreiðslur í ár eru meiri en gert var ráð fyrir í mati á gangvirði útlána við stofnun sjóðsins. „Það hefur neikvæð áhrif á vaxtatekjur sjóðsins sem ráðstafar uppgreiðslum á lægri kjörum en útlánin báru. Á móti hafa vanskil haldist óbreytt.“

Í síðustu viku kvað Héraðdómur Reykjavíkur upp dóm um að ÍL-sjóði beri ekki að endurgreiða lántökum uppgreiðslugjald. Ríflega átta milljarðar króna voru í húfi fyrir sjóðinn.