Samtök olíuútflutningsríkja, OPEC, hafa samþykkt að heimila Indónesíu að ganga aftur í félagsskapinn, þrátt fyrir að landið noti tvöfalt meiri olíu en það framleiðir.

Indónesía verður 13. ríkið í OPEC en það yfirgaf samtökin fyrir um það bil sjö árum. OPEC segir að innganga Indónesíu muni veita samtökunum mikilvæga tengingu við þann heimshluta þar sem eftirspurn á olíu vaxi hraðast.

Innganga Indónesíu hefur vakið mikla athygli þar sem ólíklegt er að hagsmunir ríkisins séu samrýmanlegir annarra OPEC ríkja. Indónesía er nettó innflytjandi á olíu, en OPEC eru hagsmunasamtök olíuútflytjenda. Indónesía mun því hagnast á lágu olíuverði en hin ríkin á háu olíuverði, en helsta markmið OPEC er að stjórna framboði, og þar með verði, á olíu.

Verð á olíu hefur fallið mikið undanfarið. Heimsmarkaðsverð á olíu í dag er um 46 dalir fyrir tunnuna, en verðið hefur lækkað um 40% á síðastliðnu ári.