Félag atvinnurekenda segir ósennilegt að tollmúrar muni rísa milli Íslands og Bretlands um áramótin þegar bráðabirgðasamningur Bretlands við Evrópusambandið rennur út í kjölfar úrsagnar landsins úr sambandinu, og hvetur félagsmenn sína um að anda rólega.

Þar sem svo gæti farið að þær samningaviðræður sem nú standa yfir milli EFTA og Bretlands hafi ekki verið kláraðar um áramótin þá mun samkvæmt umfjöllun utanríkisráðuneytisins bráðabirgðafríverslunarsamningur sem Ísland og Noregur hafa þegar gert við Bretland geta tryggt kjarnahagsmuni landsins þar til framtíðarviðræðum EFTA við Bretland lýkur.

Þær viðræður eru svo aftur háðar gengi viðræðna Bretlands við ESB um framtíðartilhögun viðskipta ríkisins við sambandið, en ný samningalota í þeim viðræðum hefst í London í dag. FA segir að félagið hafi fengið fyrirspurnir frá félagsmönnum sem stundi inn- og útflutning frá Bretlandi um hvort hætta sé á að almennir tollar taki gildi um áramótin.

Jafnvel séu einhver dæmi séu um að birgjar íslenskra innflutningsfyrirtækja hafi þrýst á um að þau birgi sig upp af vörum til að forðast að tollar leggist á þær um áramótin. Eins og áður segir ráðleggur FA félagsmönnum að anda rólega og forðast að binda fé í aukabirgðum vegna þessa í umfjöllun um málið á vef félagsins .