Þróun vísitölu byggingarkostnaðar og undirvísitalna frá því í janúar 2017 þar til janúar 2018 sýnir að byggingarvísitalan hefur hækkað um 4,8%. Undirvísitalan „Innlent efni“ hækkaði mest á tímabilinu eða um 7,5% en á hinn bóginn lækkaði „Innflutt efni“ um 1,2%, sem vegið hefur á móti hækkun byggingavísitölunnar.

Þetta kemur fram í greiningu Samtaka verslunar og þjónustu sem benda á misvísandi verðþróun liða sem hafa áhrif á verðþróun innanlands. Má þar nefna hækkun á olíuverði og matarverðs, meðan verð á drykkjarvörum hefur lækkað.

Helstu atriði verðþróunar eru að mati samtakanna:

  • Sé litið á verðþróun á mat- og drykkjavörum má sjá að síðastliðna tólf mánuði hefur verð á drykkjavörum lækkað um 2,3% á meðan verð á matvöru hefur hækkað um 0,13%.
  • Síðastliðna 12 mánuði hefur meðalverð á Brent Norðursjávarolíu hækkað um 25,7% en meðalverð á henni var í janúar síðastliðnum um 69 Bandaríkjadollarar á fatið og hefur ekki verið hærra síðan í nóvember 2014.
  • Olíuverð hefur þó lækkað á síðustu dögum. Þegar þetta er skrifað kostar fatið af Brent olíu um það bil 65 dali. Þá hefur verð á heilbrigðisþjónustu hækkað um 3,8%.