Nú er hægt að fá í verslunum Bónus flöskur af Pepsi Max sem flutt er inn frá Bretlandi og er það 32 krónum ódýrara en innlenda framleiðslan.

Kostar hálfs lítra Pepsi Max flaska frá Bretlandi 98 krónur í verslunum Bónus meðan Pepsi Max framleitt af Ölgerðinni kostar 130 krónur.

„Við erum að kaupa þetta af markaði sem telur 65 milljónir manna og ég hugsa að framleiðslan sé öllu hagkvæmari,“ svarar Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus aðspurður um málið á Vísi .

„Svo er gengi pundsins hagstætt. Eins og staðan er núna þá er þetta hagkvæmara.“

Minni kolsýra skýrir bragðmun

Guðmundur segir þann mun vera á flöskunum að aðeins minni kolsýra sé í því breska, enda finni sumir fyrir bragðmun milli þeirra erlendu og innlendu framleiðslunnar.

„Íslendingar sem eru vanir því að drekka gos með mikilli kolsýru finna mun,“ segir Guðmundur en hann segir útlendinga taka vel í innflutninginn. „Útlendingarnir eru vanir þessu bragði.“

Ekki í staðinn fyrir íslenska framleiðslu

Guðmundur segir það ekki koma til greina að skipta íslensku framleiðslunni alfarið út.

„Þetta er fyrst og fremst valkostur og mun ekki koma í staðinn fyrir íslensku framleiðsluna. Við munum ekki hætta í viðskiptum við Ölgerðina eða neitt svoleiðis. Pepsi frá Bretlandi eða Pepsi frá Íslandi? Kúnninn hefur bara val,“ segir Guðmundur en hann segir það koma til greina að flytja fleiri vörur inn meðan það reynist hagkvæmara.

„Þetta væri þó alltaf bara valkostur við innlenda framleiðslu.“ Nú þegar eru seldir ísmolar í íslenskum verslunum sem fluttir eru inn frá Noregi, Bretlandi og Bandaríkjunum.