Í nýrri greiningu Íslandsbanka , sem unnin var af aðalhagfræðingi bankans, Jóni Bjarka Bentssyni, eru áætlanir Seðlabankans um áframhaldandi inngrip á gjaldeyris- og skuldabréfamarkaði skoðaðar. Auk þess er farið yfir reynsluna af inngripum ársins 2020.

Í greiningunni kemur fram að á árinu 2020 seldi Seðlabankinn samtals ríflega 820 milljónir evra úr gjaldeyrisforðanum af gjaldeyriskaupum frátöldum. Þar af seldi bankinn 231 milljónir evra í reglulegum viðskiptum en bróðurparturinn, ríflega 590 milljónir evra, var hins vegar seldur í óreglulegum inngripum bankans. Þar munar mest um mikla gjaldeyrissölu á haustmánuðum þegar vogunarsjóðurinn BlueBay var að losa um stóra stöðu sína í ríkisbréfum á skömmum tíma.

„Að okkar mati hefði sú sala og gjaldeyriskaup sjóðsins í kjölfarið ella valdið mun skarpari veikingu krónu í fyrrahaust en raunin varð, að minnsta kosti tímabundið. Slíkt hefði aukið á óvissu í rekstri fyrirtækja, haft neikvæð áhrif á væntingar almennings og hugsanlega losað um kjölfestu verðbólguvæntinga á afar viðkvæmu tímabili. Við teljum því að hin umfangsmiklu inngrip bankans hafi verið skynsamleg þótt alla jafna sé heppilegra að ganga hægt um gleðinnar dyr í svo stórtækum afskiptum af mörkuðum," segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, í fréttatilkynningu þar sem skýrslan er kynnt til leiks.

Í greiningunni kemur jafnframt fram að líklegt sé að Seðlabankinn gefi verulega í við kaup ríkisskuldabréfa á komandi fjórðungum. Síðasta ár hafi verið ár gjaldeyrisinngripa á Kalkofnsveginum en líklega og vonandi færist þunginn í markaðsaðgerðum bankans fremur yfir á skuldabréfamarkað á hinu nýhafna ári 2021.